Glútenlausar vatnsdeigsbollur
100 ml vatn
50 ml mjólk
50 g smjör
75 g glútenlaust hveiti
1/4 tsk xanthan gum
1/4 tsk salt
1 tsk sykur
2 egg
Byrjið á að setja hveiti, xanthan gum, salt og sykur saman í skál og setjið til hliðar.
Setjið vatn, mjólk og smjör saman í pott og hitið að suðu. Þegar smjörið hefur bráðnað og blanda er farin að sjóða má slökkva undir pottinum og hella þurrefnunum út í pottinn. Hrærið vel í pottinum þar til blandan verður slétt og minnir á kartöflumús. Látið blönduna kólna í 10 mínútur.
Setjið blönduna úr pottinum yfir í skál og blandið með rafmagnsþeytara.
Pískið eggin í lítilli skál, setjið eggið í smáum skömmtum út í skálina með deigblöndunni og hrærið vel á milli.
Setjið deigið í sprautupoka og sprautið á bökunarpappír.
Bakið við 220°c í 10 mínútur og lækkið síðan hitann í 170°c og bakið í 15 mínútur til viðbótar. Athugið að það má ekki opna ofninn á meðan verið er að baka.
Þegar bollurnar eru full bakaðar má stinga lítið loftgat í botninn á hverri bollu með kökuprjón til að hleypa gufunni út á meðan þær kólna (þá verða bollurnar ekki of blautar í miðjuna).
Þegar bollurnar hafa kólnað má dýfa þeim í brætt súkkulaði og fylla með sultu og rjóma.