Nauta núðlusúpa allt frá grunni
Þessi uppskrift er skemmtileg og ég hvet alla til að prófa að gera núðlur alveg frá grunni fyrir súpuna. Að sjálfsögðu er hægt að kaupa tilbúnar núðlur til að setja út í súpuna en ef fólk hefur tíma er gaman að prófa þetta.
Núðlur:
300 g strong hveiti (blátt kornax, brauðhveiti)
150 g vatn
1/2 tsk salt
Vinna saman í hrærivél með deigkróknum í 10-15 mín. Ekki bæta við vatnið þó að deigið virðist þurrt í byrjun það lagast þegar það er hnoðað.
Leyfa deiginu að bíða í 90 mín áður en unnið er með það.
Best er að fletja deigið mjög þunnt út með kökukefli þannig að það sé um 2 mm að þykkt. Best er að setja vel af hveiti yfir deigið, brjóta það saman í fernt og skera síðan þunnt svo úr verði þunnar en langar ræmur.
Sjóða strax í 1-3 mín, sigta vatnið frá og setja að lokum út í súpuna.
ATH Núðlurnar eru soðnar í sér potti og bætt út í súpuna rétt áður en borið er fram.
Súpan:
4 lítrar vatn
1 kg nautagúllas
2 msk olía
1 msk sichuan piparkorn
5 stk störnuanís
3 lárviðarlauf
heill hvítlaukur, flysjaður laufin höfð heil
1 laukur, skorinn gróft
4 msk shaoxing kínverskt vín (má nota Mirin eða sherry)
3 msk gochujang chili sojabaunamauk
1 tómatur
1 cm engifer, skorinn í sneiðar
3 stk vorlaukur, skorinn í tvennt
3 teningar nautakraftur
120 ml létt sojasósa
1 msk sykur
Sjóðið nautakjötið í vatni í 10 mín, fleytið froðunni ofan af og takið kjötið til hliðar. Geymið soðið og hellið í gegnum sigti þegar það er sett út í súpuna.
Byrjið á að hita olíu í öðrum stórum potti ásamt sichuan piparkornum, stjörnuanís, lauk, hvítlauk og lárviðarlaufum. Þegar hvítlaukurinn er farinn að mýkjast má bæta út í gochujang maukinu ásamt víninu og tómat.
(Ég hef fundið Gochujang í asísku matvöruverslununum á Suðurlandsbraut og Lóuhólum)
Steikja í 1-2 mín og bæta síðan út í pottinn sojasósu og sykri ásamt kjöti, soði, engifer og vorlauk.
Súpan er soðin í potti í 90 mín eða í 4-6 klst á high í slowcooker ef hann er til staðar.